Bókasafn

Nám og kennsla

Skólabókasafnið er lifandi fræðslu-, upplýsinga- og menningarmiðstöð skólans. Þar er fjölbreytt úrval af bókum til yndislestrar auk náms- og kennslugagna.

Bókasafn Lækjarskóla er ætlað fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Þar er nemendum kennt á markvissan hátt að nota bókasafn og safnkost þannig að þeir þekki þá möguleika sem bókasöfn bjóða upp á til upplýsingaöflunar og vinnslu.

Skólasafnið á að styðja við kennslu og veita nemendum og starfsfólki greiðan aðgang að upplýsingum og heimildum. Eitt af hlutverkum skólasafnsins er að styðja við og hvetja nemendur til lesturs. Nemendur á öllum aldri fá lánaðar bækur og reynt er að örva áhuga þeirra á lestri bóka, bæði til skemmtunar og fróðleiks. Útlánstími bóka er 30 dagar. Umsjón með bókasafninu hafa Sigrún Birgisdóttir og Arndís Harpa Einarsdóttir.

Verkefnavinna

Nemendur á öllum aldri koma á bókasafnið og vinna að verkefnum sem hæfa aldri og getu. Nemendur í 1. og 2. bekk koma reglulega í heimsókn yfir skólaárið og vinna minni verkefni. Nemendur í 3. til 6. bekk eru með tíma skráða í stundatöflu og í þeim tímum eru unnin verkefni á sviði upplýsinga- og menningarlæsis.

Leitast er við að styðja við verkefnavinnu allra nemenda þegar kemur að heimildaöflun. Allir nemendur hafa aðgang að lestraraðstöðu og tölvum á safninu til að vinna að ritgerðum eða verkefnum og geta þá fengið leiðbeiningar um úrvinnslu heimilda og gerð heimildaskráa.

Fjölbreyttur safnkostur

Leitast er við að hafa sem fjölbreyttastan safnkost, bæði af fræði- og afþreyingarefni. Á safninu eru geymd, auk bóka, myndbönd, tímarit og spil. Handbækur eru staðsettar á safninu, í sérgreinastofum og á vinnuherbergi kennara. Efnið telur nú rúmlega 16 þúsund eintök. 

Allur safnkosturinn er skráður í tölvukerfið Leitir sem er sameiginlegt bókasafnskerfi fyrir allt landið.