Áherslur í skólastarfi

Skólinn

Eineltisáætlun

Einelti er ekki liðið í Lækjarskóla. Leitað er allra leiða til að stöðva og leysa einelti á farsælan hátt. Í skólanum eru skýrar reglur og vinnuferli ef upp kemur einelti.

Skilgreining á einelti

Einelti er skilgreint sem síendurtekin og langvarandi hegðun sem veldur vanlíðan hjá þeim sem verður fyrir henni . Einelti felur í sér að nemandi er tekinn fyrir af einum eða fleiri nemendum með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum, sögusögnum, andlegri kúgun eða hótunum.

Eineltisteymi

Eineltisteymið fer yfir allar tilkynningar um einelti, styður við þá sem eru að vinna úr málum og tryggir að unnið sé eftir áætlun skólans. Í ráðinu eru meðal annars fulltrúi stjórnenda, námsráðgjafi, þroskaþjálfi og deildarstjórar. Umsjónarkennari þeirra nemanda sem koma að málum verður einnig hluti af teyminu.

Aðgerðaráætlun í eineltismálum

Umsjónarkennari er ábyrgur fyrir að leysa og uppræta eineltismál sem upp koma í hans umsjónarbekk. Í forföllum umsjónarkennara getur námsráðgjafi eða stjórnandi hafið vinnslu í málinu án þess að upplýsa foreldri í upphafi könnunar. Mikilvægt er að byrja strax að vinna að máli þegar grunur um einelti vaknar.

Grunur um einelti

Ef grunur vaknar um einelti eiga foreldrar, starfsfólk skólans eða aðrir sem gruna að einelti sé til staðar að fylla út tilkynningu vegna gruns um einelti. Tilkynningunni er skilað til námsráðgjafa. Ef námsráðgjafi er ekki við er henni skilað til annarra meðlima eineltisteymis.

1. Könnunarferli

Þegar tilkynningu vegna gruns um einelti hefur verið skilað til námsráðgjafa er eineltisteymið kallað saman. Teymið skiptir með sér verkum og kemur svo saman aftur að könnunarferli loknu. 

2. Könnun sýnir að um einelti sé að ræða

 1. Starfsfólk er upplýst og fylgist vel með samskiptum nemenda. Ef upp koma neikvæð samskipti á að upplýsa tengilið eineltisteymis (umsjónarkennara eða námsráðgjafa).
 2. Viðtal við þolanda þar sem upplýst er um niðurstöðuna og hvað verður gert í kjölfarið. Þolanda er boðið stuðningsviðtöl við námsráðgjafa.
 3. Viðtal við geranda þar sem upplýst er um niðurstöðuna. Útskýrt er hvaða hegðun telst vera óásættanleg og gerður samningur um að hætta þeirri hegðun. Geranda er sagt frá því að nú sé verið að fylgjast vel með samskiptunum. Geranda er boðið stuðningsviðtöl við námsráðgjafa.
 4. Umsjónarkennari, aðrir kennarar og starfsfólk sem vinnur með nemendahópnum fylgjast náið með samskiptum þolanda og geranda. Ef engin neikvæð samskipti koma upp í 3 vikur er málinu lokað. 
 5. Ef neikvæð samskipti koma upp síðar er hægt að tilkynna aftur grun um einelti. 
 6. Ef neikvæð samskipti halda áfram þrátt fyrir þessar aðgerðir hefst vinnuferill 3.

3. Aðgerðir hafa ekki skilað árangri

Ef eineltið hefur enn ekki hætt eftir fyrri aðgerðir er vinnuferill 3 settur af stað. 

 1. Samtal við foreldra þolanda.
 2. Viðtal við þolanda.
 3. Fundur með geranda, foreldra geranda, stjórnanda, kennara og námsráðgjafa og gerð aðgerðaráætlun.
 4. Starfsfólk er upplýst. Það fylgist vel með samskiptum nemenda og grípur inn í ef þörf er á og upplýsir eineltisteymið. 
 5. Ef aðgerðirnar skila ekki árangri hefst vinnuferill 4.

4. Málið hefur enn ekki fengið ásættanlega lausn

 1. Máli er vísað til nemendaverndarráðs.
 2. Ráðið tekur málið fyrir, skoðar hvað hefur verið gert og velur svo leið a eða b.
  1. Talið er að málið sé fullunnið hjá eineltisteyminu og því er vísað í Brúna. Brúin tekur málið til umfjöllunar og metur hver næstu skref skulu vera.
  2. Talið er að eineltisteymi geti unnið betur með málið, ráðið leggur ákveðin atriði til og vísar máli aftur til teymis.

Hornsteinar Lækjarskóla

Lækjarskóli leggur áherslu á vellíðan og velferð nemenda og starfsfólks. Lækjarskóli á að vera öruggur vinnustaður fyrir nemendur og starfsfólk þar sem vellíðan og velferð allra er höfð að leiðarljósi. Skólinn leggur áherslu á jákvæð og uppbyggjandi samskipti og starfið mótast af virðingu og umhyggju.

Hornsteinar Lækjarskóla eru: Ábyrgð – Virðing – Öryggi.

Ábyrgð

Nemandi sýnir þá ábyrgð að fylgja fyrirmælum starfsfólks, gangi frá eftir sig, geri alltaf sitt besta og sé stundvís.

Virðing

Nemandi er kurteis, tillitssamur og virðir eigur og rétt annarra.

Það er öllum nauðsynlegt að finna að maður njóti virðingar annarra. Það veitir fólki jákvæða sjálfsmynd og auðveldar samskipti við aðra.

Öryggi

Nemandi sýnir alltaf aðgæslu og gæti handa sinna og fóta og gangi hægra megin.

SMT-skólafærni

SMT-skólafærni þjálfar félagsfærni og æskilegri hegðun er veitt aukin athygli með markvissu hrósi og umbunum. Skýr fyrirmæli eru höfð að leiðarljósi og rækt lögð við góð samskipti.

Jákvæð skólafærni byggir á þeirri hugmyndafræði að skapa gott andrúmsloft í skólanum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun.

Hrós er notað sem jákvæð og árangursrík hvatning; hrós er jákvætt, einfalt og hreinskilið og sett þannig fram að nemandi skilji; hrósað er jákvætt, vingjarnlega og gjarnan með brosi.

Svanurinn

Svanurinn, umbunarmerki skólans, er gefinn þegar starfsmaður verður vitni að æskilegri hegðun nemanda, eins og að fara eftir reglum eða þegar hann sýnir framför. Einnig er hægt að gefa hópum eða bekkjum Svaninn. Nemandi skilar síðan Svaninum til umsjónarkennara. Bekkurinn fær umbun þegar fyrir fram ákveðnum fjölda Svana er náð. Stoppmiði er gefinn þegar nemanda tekst ekki endurtekið að fara eftir reglum skólans og við alvarlegri brot á reglum. Þá fer ferli af stað samkvæmt reglum SMT.

SMT-teymi

Við utanumhald og áframhaldandi þróun SMT-skólafærni í Lækjarskóla starfar SMT teymi. Hlutverk þess er að skipuleggja skólafærni í Lækjarskóla, halda utan um kennslu, endurmenntun, skipulag, fræðslu til starfsmanna og taka við ábendingum þeirra um allt sem lýtur að SMT skólafærni. Teymið endurskoðar með reglubundnum hætti reglutöflu, fuglagjöf, stoppmiða og agaferli. SMT-reglur skólans eru einnig skólareglur skólans. Í SMT-teymi skólans sitja aðstoðarskólastjóri, deildarstjórar, námsráðgjafi, tveir kennarar og einn fulltrúi annarra starfsmanna. SMT-teymið fundar á þriggja vikna fresti.

PMT

SMT- skólafærni byggir á PMT- foreldrafærni (Parent Management Training). Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar, í samvinnu við félagsþjónustuna og heilsugæsluna, býður upp á námskeið fyrir foreldra til þess að vinna eftir PMT. PMT-foreldrafærni byggir á kenningu Dr. Gerald Pattersons og er oft kennd við Oregon-fylki í Bandaríkjunum og kallast þar Positive Behavior support (PBS).